Í gær var miðvikudagur.
Á miðvikudögum kemur nýr þáttur af Arrow.
En nei, í gær kom ENGINN þáttur..... og ég hélt í smá stund að lífið væri búið.
Pása! Frábært. Hvaða snilling datt í hug að setja þætti í pásur?
Ég þarf semsagt að bíða í viku í viðbót!
En ég er aðeins að jafna mig á þessu og er orðin nokkuð vongóð um að ég muni hafa þessa viku af.
Í staðinn skellti ég mér með unnustanum í Bogfimisetrið í Kópavogi núna í kvöld.
Þar sýndi ég mína gríðarlegu hæfileika í bogfimi og rústaði Hannesi (að sjálfsögðu).
Hannes greyið fær sennilega aldrei að gleyma því að ég hafi hitt í miðjuna en ekki hann.
Egóið mitt fær þá allavega eitthvað til þess að lifa á næstu vikurnar eða svo.
Næst er stefnan svo bara sett á ólympíuleikana í bogfimi.
En ég mæli samt eindregið með þessu, þetta var alveg ótrúlega gaman!
Mér tókst allavega að gleyma mér og skemmta mér konunglega.
Mælikvarðinn á það var sá að á meðan var litla magakveisuprinsessan mín heima og hélt afa sínum við efnið og lét hann ganga með sig um gólf.
En þeir sem þekkja mig vel vita að venjulega hefði ég hlaupið heim um leið og ég vissi af því að barnið mitt hefði svo mikið sem rekið upp eitt lítið vein. Svona nánast.
En í staðin gleymdi ég því mínútu síðar og var bara upptekin við að rústa Hannesi.
Svo þetta hlýtur að hafa verið nokkuð gaman.
Ég er ekki alveg búin að læra það ennþá núna rúmum 2 árum síðar að hætta að vera mamma í smá stund þegar ég fer barnlaus úr húsi.
Hlýt að læra það fyrir fermingu. Er það ekki?
Annars skelltum við litla fjölskyldan okkur á Laugarveginn í dag og röltum þar í rigningunni.
Voða kósý. Og jólalegt.
Verð samt að viðurkenna að það "að rölta" Laugarveginn er kannski heldur vægt til orða tekið.
Þetta var kannski meira svona að elskulegur sonur minn hljóp upp og niður Laugaveginn. Og ég á eftir honum.
Ég þurfti allavega ekki að fara í ræktina í dag.
Ég hugsa ennþá alltaf um okkur sem "litlu fjölskylduna".
En þegar ég spái betur í því, þá erum við sennilega ekkert svo lítil lengur?
Mér finnst ég vera orðin hrikalega gömul þegar ég hugsa til þess að ég eigi 4 manna fjölskyldu.
Og ég sem er bara 22 ára! Nei, hættu nú alveg.
En þetta er samt svo best!
Nú fer þessari tæplega 3 vikna Reykjavíkurdvöl að ljúka.
Verður gott að komast heim, en það er samt alltaf kósý að vera hjá tengdó.
Þetta hafa verið góðar vikur hérna í Smáranum.
Mig hlakkar bara svo til að fara að skreyta heima og baka jólakökur.
Fyrstu jólin í húsinu okkar, veivei.
Ég veit ekki hvað er að mér þetta árið. Er eitthvað óvenju spennt fyrir jólunum.
Ég setti líka persónulegt met!
Það er ennþá nóvember og ég er búin að láta prenta jólakortin.
Ekki nóg með það, heldur eru þau komin í umslög líka.
Toppið það!!
Mögulega er þetta afleiðing þess að vera heima í fæðingarorlofi? Hmmm.
Við hjúin ætlum svo að skella okkur á jólahlaðborð á laugardaginn.
Ég er mjög spennt. Enda bara búin að hanga heima nánast undanfarna 9 mánuði.
Svo það að skella sér í betri gallann og henda sér út með skemmtilegu fólki er vel þegið!
Btw, þetta er orðin alltof löng færsla. Svona ef einhver á að nenna að lesa þessa steypu.
Góða nótt!
No comments:
Post a Comment