Sunday, December 8, 2013

Almenn leiðindi vol. 2 - úbbs!

Jæja. Ég náði í eitthvað Blogger app í iphone-inn, svo ég verð nú að prófa það. Auk þess vel kominn tími á eitthvað nýtt hérna. Eða það myndi ég halda.


Við hjúin skelltum okkur nú á jólahlaðborð á laugardaginn fyrir viku. Það var bara fínt, þó að maturinn hafi kannski ekki verið neitt til að hrópa þrefalt húrra fyrir. En alveg vel séð að setja afkvæmin í smá pössun og komast út í góðra vina hópi.
En við vorum nú komin heim fyrir miðnætti. Enda ellin að sækja á okkur hratt og örugglega. Kannski spilaði það eitthvað inní að móðirin gæti ekki verið mikið lengur í burtu frá yngra barninu. En bara kannski. 
En ég meina, ég var búin að vera í burtu í einhverja 5 tíma eða svo. Rosalegt alveg. 


Ég hrundi svo í jólahreingerningar- og skreytingar gírinn á sunnudaginn. Ég náði að klára eldhúsið og þar með var ég lögst fárveik í rúmið. Og hef ekki farið þaðan síðan. Viku síðar!!
Ég kenni þrifunum um. Þetta er bara greinilega ekki fyrir mig.



Líf mitt hefur semsagt verið ansi viðburðaríkt seinustu sjö dagana. Eða kannski ekki bara?
Ég hef þó afrekað að klæða mig í að minnsta kosti 2-3 ullarpeysur, henda á mig þykkum lúffum og eiginlega bara öllu sem ég finn sem gæti talist sem hlý flík. Þá hendi ég mér svo undir 2 sængur, þar sem ég er í lágmark klukkutíma að krókna úr kulda. Þegar því líkur tekur við ágætis mission við að rífa sig úr öllum gírnum og næsti klukkutími fer í það að rúlla mér um í rúminu í svitabaði að kafna úr hita. Svoleiðis gekk þetta sitt á hvað í nokkra daga. Mikið gott og mikið gaman!

Ég var ansi sannfærð á tímabili að ég væri á grafarbakkanum og ætti mjög skammt eftir ólifað. Hannes var ekki jafn sannfærður. Skil það ekki. Reyndi þá að sannfæra pabba. Gekk ekki heldur, pff.
Ég skreið því til læknis á miðvikudagsmorgunn. Svona áður en ég væri búin að úrskurða sjálfa mig látna. Já, eða með mjög banvænt krabbamein. Jafnvel dass af heilablóðfalli. Eða allavega mjög slæmt og ólæknandi tilfelli af hálsbólgu. Og það allt með hjálp google.
Já, maður verður nú að skoða alla möguleika.
Læknirinn vildi nú samt ekki meina að ég væri á dánarbeðinu. En hann lét mig nú samt fá sýklalyf til þess að vera alveg viss um að ég myndi hafa þetta af. 


Ég rúllaði því gegnum dagana með þessum elskum. Elsku verkjalyf.
Tja, þangað til að ég ofþornaði og endaði í innlögn á Neskaupsstað með vökva og sýklalyf í æð. Húrra fyrir mér!


Maður þarf víst að drekka almennilega með þessu líka. 
Og þegar maður er með barn á brjósti og nærist um það bil minna en ekkert, þá á maður víst að drekka mun meira en almennilega. I learned it the hard way!
Neinei, ég reyndi alveg, bara var ekki að virka nógu vel. Svo það er búið að vökva mig duglega.
Þau mega samt eiga það þarna á Neskaupsstað að það finnst sennilega ekki betri þjónusta á sjúkrahúsi en þar. Það sem ég elska konurnar þar, já og kallarnir eru nú ágætir líka.
Þetta er bara eins og fimm stjörnu hótel, og ekkert til þarna sem heitir vesen held ég.



Þeim feðgum hefur sem betur fer ekki leiðst mikið á meðan ég hef verið í bælinu.
Veit ekki alveg hvernig þetta hefði allt saman endað ef Hannes hefði verið veikur á sama tíma.
Þá hefðum við sennilega þurft að segja upp foreldrahlutverkinu rétt sem snöggvast. En Hannes græjaði þetta af einstakri snilld og hljóp á milli þess að hugsa um börnin tvö og að hjúkra spússu sinni (sem þurfti alveg fullt af hjúkri og vorkenni, mehe).

Ég reis semsagt örlítið úr rekkju á þessum fagra sunnudegi. Þó eiginlega bara til þess að fara í enn eina læknisheimsóknina í morgunn. En ég held þó að ég sé öll að koma til, eða meira svona vona, því ég nenni þessu ekki lengur! Já, ég segi upp, hér og nú!


Enda þetta á þessum. Bara svona því hann er eiginlega bestur.
Vonandi verður næsta blogg meira spennandi en þetta.
Þetta kann að ske þegar maður er bjartsýn og ætlar sér að fara að segja frá einhverju gáfulegu eftir viku einangrun. Getur varla endað mikið öðruvísi. Ég biðst forláts!


P.s. Það eru 16 dagar í jólin!!!




No comments:

Post a Comment