Tuesday, December 17, 2013

Þegar ég verð rík....

.... þá ætla ég að kaupa iittala, eins og það leggur sig!
Semsagt sennilega aldrei.
En maður getur nú látið sig dreyma. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi verða sjúk í eitthvað eins og iittala. Skálar, diskar, glös, kertastjakar, vasar o.s.frv. What? Ég? 
Ég er augljóslega að verða gömul. Mjög gömul!
 En.... sjá þessa fegurð.


Hannes er ekki með á nótunum og segir að þetta sé ömmulegt og ljótt........
Ég er greinilega eitthvað að klikka í uppeldinu á honum!
Hann kann ekki gott að meta. Honum fannst mjög áhugavert og frekar asnalegt þegar ég tapaði mér smá í gleðinni þegar hann fékk rauðu marimekko skálina í jólagjöf frá vinnunni sinni. Fyrir honum var þetta bara skál.  Rauð skál. Sem átti heima inni í skáp. Pff!
Hann fattar ekki að allir elska iittala... am i right?



Friday, December 13, 2013

Einn kjóll á dag kemur skapinu í lag..


7 vikna gamla dóttir mín á sennilega fleiri kjóla nú þegar en ég hef átt um ævina.
Þetta er bara tæplega helmingurinn.
Ég sé fram á það að þurfa að leigja sér húsnæði undir herlegheitin með þessu áframhaldi.
Við erum samt ekkert að hata þetta. Eða allavega ekki ég. 
Ef hún fær eitthvað af mínum töktum mun hún þó sennilega um 3 ára aldur byrja að mótmæla harðlega öllu sem heitir kjóll, eða bara öllu sem er stelpulegt. 
Vonandi verður hún örlítið dannaðri en mamma sín, mehe.
Ég nýti allavega tímann á meðan hún hefur ekki vit á því að mótmæla og skvísa hana upp.
Bæti þannig upp öll árin sem ég hef eytt skríðandi ofan í drullupolli með strákunum, á meðan aðrar stelpur á mínum aldri léku sér heima í barbí og mömmó. Það var bara of stelpulegt fyrir minn smekk!


Wednesday, December 11, 2013

Í kjólin fyrir jólin?

Eða í mussuna með hlussuna.......
Þýðir víst lítið annað!

Var hálfnuð með 30 daga plankaáskorunina um daginn og komst að því með hverjum deginum að grindin mín var augljóslega ekki komin í gúddí fíling eftir þessa meðgöngu og við hvert plank drapst ég meira og meira í mjóbakinu. Svo ég beilaði. Góð afsökun. Ég er aumingi. Ég veit.
Svo ég ákvað að henda mér frekar í eitthvað sem drepur ekki jafn mikið á mér mjóbakið og grindina. 



Push ups, tricep dips og squats. Wish me luck!
Hef minnstar áhyggjur af push ups og dipsunum. En ég hef verulegar áhyggjur af því að geta ekki gengið eðlilega þegar fer aðeins að líða á squatið.
Ég er samt að elska þessar 30 daga áskoranir!

Þannig ef ég verð ekki komin með sjúklega nettan botn eftir 30 daga. Sparkiði þá í mig því þá hef ég greinilega eitthvað verið að svindla. Eða þá að ég þarf að sparka í þann sem bjó þetta til ef þetta færir mér ekki eðal bossa!

Það er hægt að klikka á myndirnar og þá stækka þær fyrir þá sem ekki vissu. Svona ef þið viljið skoða betur. Jafnvel henda ykkur í þetta líka. Mana þig!

En ég er semsagt að mestu risin úr rekkju. Svo ég mun hlífa ykkur við vælandi veikindabloggum vonandi eitthvað á næstunni. Vonandi ykkar vegna.

En svona fyrir utan það, þá ef einhver vissi það ekki heldur þá er hægt að henda sér hérna til hægri á síðunni og þar getiði ýtt á 'Like' þar sem stendur 'Fylgstu með...' en þá fáiði í news feed á facebook þegar ég blogga. Og ég er náttúrulega svo einstaklega skemmtilegt eintak að ég geri ráð fyrir því að nú keppist allir um að ýta á like. Eða....


Ég skoraði nokkur rokkstig hjá syninum í dag þegar ég sótti hann á leikskólann á sleða. 
Hann er svo augljóslega sammála því sem ég byrjaði bloggið á. "Í mussuna með hlussuna".
Hann allavega skipaði mér að hlaupa alla leiðina heim. Mér leið svolítið eins og ég væri mætt í biggest looser eða eitthvað þegar hann öskraði "HLAUPAAAAAAAA!" um leið ef ég vogaði mér að svo mikið sem hægja örlítið á. Ég þorði ekki annað en að hlýða.
Svo fundum við stærstu brekkuna á leiðinni heim og brunuðum niður hana. Ég veit ekki hvort okkar skemmti sér betur. 
Held ég fari aðra sleðaferð á morgunn. Samt bara því ég veit að hann vill það pottþétt sko. Kannski smá líka svo ég geti rennt mér aðeins. Ég þroskast sennilega aldrei.


Stekkjastaur er búinn að koma við í glugganum hans Brynjars. Vííííí.
13 dagar í jólin!




Sunday, December 8, 2013

Almenn leiðindi vol. 2 - úbbs!

Jæja. Ég náði í eitthvað Blogger app í iphone-inn, svo ég verð nú að prófa það. Auk þess vel kominn tími á eitthvað nýtt hérna. Eða það myndi ég halda.


Við hjúin skelltum okkur nú á jólahlaðborð á laugardaginn fyrir viku. Það var bara fínt, þó að maturinn hafi kannski ekki verið neitt til að hrópa þrefalt húrra fyrir. En alveg vel séð að setja afkvæmin í smá pössun og komast út í góðra vina hópi.
En við vorum nú komin heim fyrir miðnætti. Enda ellin að sækja á okkur hratt og örugglega. Kannski spilaði það eitthvað inní að móðirin gæti ekki verið mikið lengur í burtu frá yngra barninu. En bara kannski. 
En ég meina, ég var búin að vera í burtu í einhverja 5 tíma eða svo. Rosalegt alveg. 


Ég hrundi svo í jólahreingerningar- og skreytingar gírinn á sunnudaginn. Ég náði að klára eldhúsið og þar með var ég lögst fárveik í rúmið. Og hef ekki farið þaðan síðan. Viku síðar!!
Ég kenni þrifunum um. Þetta er bara greinilega ekki fyrir mig.



Líf mitt hefur semsagt verið ansi viðburðaríkt seinustu sjö dagana. Eða kannski ekki bara?
Ég hef þó afrekað að klæða mig í að minnsta kosti 2-3 ullarpeysur, henda á mig þykkum lúffum og eiginlega bara öllu sem ég finn sem gæti talist sem hlý flík. Þá hendi ég mér svo undir 2 sængur, þar sem ég er í lágmark klukkutíma að krókna úr kulda. Þegar því líkur tekur við ágætis mission við að rífa sig úr öllum gírnum og næsti klukkutími fer í það að rúlla mér um í rúminu í svitabaði að kafna úr hita. Svoleiðis gekk þetta sitt á hvað í nokkra daga. Mikið gott og mikið gaman!

Ég var ansi sannfærð á tímabili að ég væri á grafarbakkanum og ætti mjög skammt eftir ólifað. Hannes var ekki jafn sannfærður. Skil það ekki. Reyndi þá að sannfæra pabba. Gekk ekki heldur, pff.
Ég skreið því til læknis á miðvikudagsmorgunn. Svona áður en ég væri búin að úrskurða sjálfa mig látna. Já, eða með mjög banvænt krabbamein. Jafnvel dass af heilablóðfalli. Eða allavega mjög slæmt og ólæknandi tilfelli af hálsbólgu. Og það allt með hjálp google.
Já, maður verður nú að skoða alla möguleika.
Læknirinn vildi nú samt ekki meina að ég væri á dánarbeðinu. En hann lét mig nú samt fá sýklalyf til þess að vera alveg viss um að ég myndi hafa þetta af. 


Ég rúllaði því gegnum dagana með þessum elskum. Elsku verkjalyf.
Tja, þangað til að ég ofþornaði og endaði í innlögn á Neskaupsstað með vökva og sýklalyf í æð. Húrra fyrir mér!


Maður þarf víst að drekka almennilega með þessu líka. 
Og þegar maður er með barn á brjósti og nærist um það bil minna en ekkert, þá á maður víst að drekka mun meira en almennilega. I learned it the hard way!
Neinei, ég reyndi alveg, bara var ekki að virka nógu vel. Svo það er búið að vökva mig duglega.
Þau mega samt eiga það þarna á Neskaupsstað að það finnst sennilega ekki betri þjónusta á sjúkrahúsi en þar. Það sem ég elska konurnar þar, já og kallarnir eru nú ágætir líka.
Þetta er bara eins og fimm stjörnu hótel, og ekkert til þarna sem heitir vesen held ég.



Þeim feðgum hefur sem betur fer ekki leiðst mikið á meðan ég hef verið í bælinu.
Veit ekki alveg hvernig þetta hefði allt saman endað ef Hannes hefði verið veikur á sama tíma.
Þá hefðum við sennilega þurft að segja upp foreldrahlutverkinu rétt sem snöggvast. En Hannes græjaði þetta af einstakri snilld og hljóp á milli þess að hugsa um börnin tvö og að hjúkra spússu sinni (sem þurfti alveg fullt af hjúkri og vorkenni, mehe).

Ég reis semsagt örlítið úr rekkju á þessum fagra sunnudegi. Þó eiginlega bara til þess að fara í enn eina læknisheimsóknina í morgunn. En ég held þó að ég sé öll að koma til, eða meira svona vona, því ég nenni þessu ekki lengur! Já, ég segi upp, hér og nú!


Enda þetta á þessum. Bara svona því hann er eiginlega bestur.
Vonandi verður næsta blogg meira spennandi en þetta.
Þetta kann að ske þegar maður er bjartsýn og ætlar sér að fara að segja frá einhverju gáfulegu eftir viku einangrun. Getur varla endað mikið öðruvísi. Ég biðst forláts!


P.s. Það eru 16 dagar í jólin!!!




Tuesday, December 3, 2013

Veikindi og almenn leiðindi


Svona hefur dagurinn minn verið í hnotskurn.
Hann hefur einkennst af hausverk, beinverkjum, hita og hálsbólgu. Ó jei, ég tapa mér í gleðinni.
Í 2 þykkum peysum, buxum, 2 sokkum, með eyrnaband, vafin inn í þykkt teppi og undir sæng. Já, með hausinn undir sænginni líka.
Svona miðað við hvað ég er búin að væla mikið í Hannesi í dag, þá hef ég sterkan grun um að ég sé með man flu.
En hann greyið hefur nú reddað málunum með því að töfra fram úr erminni sveppasúpu þegar ég væli sem mest yfir því hvað mér sé kalt, matað mig með verkjatöflum reglulega yfir daginn og sagst vorkenna mér voða mikið.
Já, það þarf sennilega mikið jafnaðargeð og sterk bein til þess að búa með mér stundum. Eða alltaf.

En fyrir skjótari bata er góð hugmynd að skoða bara skó.
Ég er eitthvað skósjúk þessa dagana. Meira en venjulega.
Ég held það sé ekki hægt að eiga of mikið af skóm. Maður getur nefninlega alltaf á sig blómum bætt.








Ég vil þá alla. Og meira til.
Það er bara alltof mikið til af fallegum skóm.
Ég gæti haldið endalaust áfram.


Ég er samt ekki ennþá farin að skilja þennan stíl.
Finnst þetta hrikalegt. Langar samt að prófa að labba á þessu.




Og hvaða flippkisi var að störfum hér?
Neinei, það er ekki öll vitleysan eins.

Þetta fer kannski að verða aðeins of mikið af skóm í bili.
Ég ætla að gera heiðarlega tilraun til þess að henda mér í beddann.
Góða nótt!





Friday, November 29, 2013

My name is Oliver Queen....

Í gær var miðvikudagur.
Á miðvikudögum kemur nýr þáttur af Arrow.
En nei, í gær kom ENGINN þáttur..... og ég hélt í smá stund að lífið væri búið.
Pása! Frábært. Hvaða snilling datt í hug að setja þætti í pásur?
Ég þarf semsagt að bíða í viku í viðbót!
En ég er aðeins að jafna mig á þessu og er orðin nokkuð vongóð um að ég muni hafa þessa viku af.

Í staðinn skellti ég mér með unnustanum í Bogfimisetrið í Kópavogi núna í kvöld.
Þar sýndi ég mína gríðarlegu hæfileika í bogfimi og rústaði Hannesi (að sjálfsögðu).





Hannes greyið fær sennilega aldrei að gleyma því að ég hafi hitt í miðjuna en ekki hann.
Egóið mitt fær þá allavega eitthvað til þess að lifa á næstu vikurnar eða svo.
Næst er stefnan svo bara sett á ólympíuleikana í bogfimi.

En ég mæli samt eindregið með þessu, þetta var alveg ótrúlega gaman!
Mér tókst allavega að gleyma mér og skemmta mér konunglega.
Mælikvarðinn á það var sá að á meðan var litla magakveisuprinsessan mín heima og hélt afa sínum við efnið og lét hann ganga með sig um gólf.
En þeir sem þekkja mig vel vita að venjulega hefði ég hlaupið heim um leið og ég vissi af því að barnið mitt hefði svo mikið sem rekið upp eitt lítið vein. Svona nánast.
En í staðin gleymdi ég því mínútu síðar og var bara upptekin við að rústa Hannesi.
Svo þetta hlýtur að hafa verið nokkuð gaman.
Ég er ekki alveg búin að læra það ennþá núna rúmum 2 árum síðar að hætta að vera mamma í smá stund þegar ég fer barnlaus úr húsi.
Hlýt að læra það fyrir fermingu. Er það ekki? 

Annars skelltum við litla fjölskyldan okkur á Laugarveginn í dag og röltum þar í rigningunni.
Voða kósý. Og jólalegt.




Verð samt að viðurkenna að það "að rölta" Laugarveginn er kannski heldur vægt til orða tekið.
Þetta var kannski meira svona að elskulegur sonur minn hljóp upp og niður Laugaveginn. Og ég á eftir honum.
Ég þurfti allavega ekki að fara í ræktina í dag.

Ég hugsa ennþá alltaf um okkur sem "litlu fjölskylduna".
En þegar ég spái betur í því, þá erum við sennilega ekkert svo lítil lengur?
Mér finnst ég vera orðin hrikalega gömul þegar ég hugsa til þess að ég eigi 4 manna fjölskyldu. 
Og ég sem er bara 22 ára! Nei, hættu nú alveg. 
En þetta er samt svo best!

Nú fer þessari tæplega 3 vikna Reykjavíkurdvöl að ljúka.
Verður gott að komast heim, en það er samt alltaf kósý að vera hjá tengdó.
Þetta hafa verið góðar vikur hérna í Smáranum.
Mig hlakkar bara svo til að fara að skreyta heima og baka jólakökur.
Fyrstu jólin í húsinu okkar, veivei.
Ég veit ekki hvað er að mér þetta árið. Er eitthvað óvenju spennt fyrir jólunum.
Ég setti líka persónulegt met!
Það er ennþá nóvember og ég er búin að láta prenta jólakortin.
Ekki nóg með það, heldur eru þau komin í umslög líka.
Toppið það!!
Mögulega er þetta afleiðing þess að vera heima í fæðingarorlofi? Hmmm.

Við hjúin ætlum svo að skella okkur á jólahlaðborð á laugardaginn. 
Ég er mjög spennt. Enda bara búin að hanga heima nánast undanfarna 9 mánuði.
Svo það að skella sér í betri gallann og henda sér út með skemmtilegu fólki er vel þegið!

Btw, þetta er orðin alltof löng færsla. Svona ef einhver á að nenna að lesa þessa steypu.
Góða nótt!




Wednesday, November 27, 2013

Hvað skyldi vera að mér?

Ég er augabrúnaperri. Já, það er til. 
Ef það var ekki til, þá allavega bjó ég það til. Hér og nú!
Get eytt meiri tíma í að skoða myndir af augabrúnum en eðlilegt þykir held ég.
Enda augabrúnir einstaklega spennandi fyrirbæri.
Ellen skilur mig. Ég hugga mig við það.


Ég veit ekki hvað skal segja.

Svona útfrá þessu fetishi mínu þá datt ég inn á #instagram hjá Alix Walker Artistry. 
Það er eiginlega frekar mindblowing hvað smá plokk og dass af lit getur breytt miklu.
Ekki að það sé eitthvað sem engin vissi áður en þessi bloggfærsla kom til sögunnar. Neinei. 
Alltaf gaman að spá í því samt sem áður.
En ég elska svona before - after myndir. Af augabrúnum já. Ég er skrítið eintak, ég veit.
En það er einmitt það sem ég hef helst verið að gera í kvöld. Skoða myndir.

 

Líf mitt myndi samt verða u.þ.b. 84 númerum auðveldara ef það þyrfti ekki að spá í þessu drasli nema svona 2x á ári. Hámark! 
Þessvegna dreymir mig um að láta henda á mig tattoo-augabrúnum einn daginn. 
Ég mun láta það rætast. Vonandi.

Fyrir áhugasama þá mæli ég með þessari færslu af Hún.is.
Þetta gladdi mitt litla hjarta.


Hver kannast annars ekki við þetta?

Annað sem er áhugavert.
Hvernig mér tókst að búa til þetta langa færslu...... Um augabrúnir?
Ég leyni greinilega á mér. Veit ekki hvort það er jákvætt í þessu samhengi.
Því þegar betur er að gáð er lítið um spennu í þessari færslu.
En þetta bara gerðist. Alveg óvart.
Sennilega því ég er soddan steik. 
Þið munuð sjá það fljótt fyrst ég ákvað að fara að deila steypunni sem vellur um í hausnum á mér með alþjóð. Kannski var það ekki svo góð hugmynd eftir allt saman.
Svona upp á 'reppið' að gera. Iiiihh!
En það er svosem ekki hægt að vera með miklar væntingar til mín í þessum efnum.
Þegar ég veit varla sjálf hvað er að svamla um í kollinum á mér. Hvernig datt mér í hug að ég gæti skrifað eitthvað skiljanlegt í tiltölulega bundnu máli? Verður flóðlegt að fylgjast með þessu sennilega. 
Vonandi bara hlýtur enginn varanlegan andlegan skaða af þessum lestri.

Þessi bloggfærsla átti nú til að byrja með ekki að snúast alfarið um brúnir. 
En ég legg ekki meira á ykkur í bili. Þetta er víst meira en nóg til að meðtaka á einu kvöldi.
Ég vil ekki svæfa ykkur endanlega úr leiðindum. Ekki strax.

Ætla að halda áfram að ganga um gólf með yngra partýdýrið.
En henni finnst við hæfi að vaka frá miðnætti og langt fram á nótt. Alltaf.
En þess má til gamans geta að þessi færsla tók rúmar 2 klst í skrifum vegna þessa.
Skemmtilegt.

Hvað skyldi orðið "augabrúnir" / "augabrúnum" koma oft fram hér fyrir ofan?
Ég nenni ekki að telja. En það gæti verið einhverskonar met miðað við lengd og orðafjölda færslunnar?