Saturday, March 15, 2014

Hetjur.

Var með stillt á Rúv í morgunn og datt inn í að horfa á vetrarólympíumót fatlaðra þegar Brynjar var búinn að horfa á barnatímann.
Það var verið að keppa í stórsvigi, og sá fyrsti sem ég sá var bara með eina hendi og á eftir honum komu nokkrir sem voru ýmist bara með smá stubba eða alveg handalaus frá öxl. 
Ég var eiginlega bara dolfallinn yfir þessu, þvílíki metnaðurinn og ekkert smá flott fólk sem lætur greinilega ekkert stoppa sig.

Svo komu nokkrir keppendur sem fengu mig alveg til að gapa.  
Ég er ekkert að ýkja þegar ég segi að ég myndi ekki þora að fara og sviga. 
Ég er þó svo heppin að ég er með tvær fætur og tvær hendur, en ég er samt skræfa og myndi ekki þora að fara svona hratt á skíðum og hvað þá í eitthvað zikzak!!!
En þessir... Vá!


Þetta er Andrzej Szczesny.
Hann fékk banvænt beinkrabbamein og missti hægri fótinn. En er þrátt fyrir það einn sá besti á skíðum (eða réttara sagt á skíði).


Christian Lanthaler missti vinstri fótinn við leik þegar hann var 5 ára en það var hægt að bjarga þeim hægri.

Næsti flokkur á eftir var stórsvig - sitjandi. Jább. Þeir sem eru í hjólastól eða hafa misst fæturnar jafnvel keppa í þessum flokk. Ég bara næ varla upp í það hvað þetta fólk er miklar hetjur. 
Á meðan ég sit heima og væli og segist ekki komast út ef ég fæ hausverk eða eitthvað, þá er þetta fólk að keppa á skíðum þrátt fyrir að vera jafnvel lamað í hálfum líkamanum? 
*Ekki meira væl Stefanía*


Yohann Taberlet var afreksmaður á skíðum þangað til hann varð tvítugur, þá hætti hann útaf meiðslum. Hann lamaðist svo í fótunum í fallhlífarstökki árið 2002. Seint árið 2003 var hann svo byrjaður að keppa á skíðum. Þvílíki metnaðurinn!


Christopher Devlin-Young lamaðist í flugslysi og keppir nú á skíðum.

Ég bara skil ekki einu sinni hvernig þetta er hægt. Á meðan sumir geta varla haldið jafnvægi á tveimur skíðum, þá er þetta fólk að fara á þvílíkri ferð á jafnvel bara einu skíði. Þetta hlýtur að vera hrikalega erfitt.
Og að rífa sig upp eftir alvarlegt slys og enda á því að keppa á ólympíuleikunum. Vá!
Ég sat bara hálf orðlaus yfir sjónvarpinu yfir dugnaðinum.
Hetjur. Það er bara þannig!




1 comment: